Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Vá spennan...

Jahérna hér..... Úrslitaleikur á sunnudagsmorguninn.  Þetta er STÓRI DRAUMURINN að rætast.

Sem handboltaunnanda í fjöldamörg  ár, jah alveg síðan við pabbi sátum saman og hlustuðum á Bjarna Fel. og fleiri lýsa leikjum í útvarpinu, áður en ég kláraði grunnskólannBlush þá er þetta toppurinn á tilverunni.  Takk strákar fyrir að vera svona frábærir.  Leikgleðin og ekki síst sigurgleðin í dag var svo smitandi að ég er ennþá með gæsahúð.  Ég gat ekki setið kyrr og horft, ég prjónaði einn vettling yfir leiknum Grin

Forsetinn hvatti okkur til að halda þjóðhátíð og Dorrit var svo yndislega einlæg og frábær þegar hún upplýsti hvað henni finnst um landið og þjóðina.. Er hægt að vera stoltari af einstökum atburði en þetta.   "Ísland er stórasta land í heimi . "    Ég get ekki verið meira sammála.

Þetta verður seint toppað.  Til hamingju Ísland. 


Rakari!!!

Eitt sinn rakari ávallt rakari?  Spurning sem ég svara játandi í dag allavegna.

Ég fór í dag að vinna við fagið mitt enn á ný.  Fyrst um sinn verð ég bara að vinna seinni partinn á föstudögum en um leið og ég losna frá vinnunni í höfuðborginni þá fer ég að vinna á Rakarastofu Gísla í fullu starfi.  Ég hef alltaf jafn gaman af því að klippa. 

Það vantar bara að fá sölumann í staðinn fyrir mig. 

En af húsinu mínu er það að frétta að ég kláraði sumarfríið með því að mála fyrstu umferðina af Álmgrænum á kjallarann. Ég á reyndar eftir að laga steypuskemmdirnar, en það þarf að  bíða betri tíma.  Húsið skartar vonandi sínu fegursta í næsta mánuði en þá ætti ég að vera búin að ná að klára að skipta um lit á þessum eina glugga sem eftir er og líka á þakkantinum sem eftir er.

Þangað til set ég ekki nýja mynd af Nýjöfninni minni.  En mér finnst húsið vera að verða stórglæsilegt Wink

 

 


Sumarfrí

Enn og aftur komið sunnudagskvöld.  Mikil ósköp flýgur þessi tími áfram.

Ég og Þrösturinn minn fórum í áframhaldandi útilegu eftir Verslunarmannahelgina og skelltum okkur  eftir sólahrings stopp hér heima í útilegu í Stykkishólm.   Við flýttum okkur náttúrulega svo mikið að pakka að við gleymdum nokkrum misnauðsynlegum hlutum, en föttuðum samt um það leiti sem við komum í Borgarnes að stólar og borð væru bráðnauðsynleg í útilegu.  Eftir að hafa þrætt allar verslanir sem hugsanlega gætu selt þessháttar hringdum við í Unni sem keyrði á móti okkur með borðið af sólpallinum og tvo klapp stóla.  Allt annað sem gat hafa gleymst væri hægt að redda.  Var svo sem ekki alvarlegra en vatnsbrúsi ( kostar 350 kall í Bónus) og svo vaskafat fyrir uppþvott.  En það er heitt vatn og vaskar á tjaldsvæðinu svo að það kom ekki að sök. 

Á fimmtudagsmorguninn skelltum við okkur svo í Suðureyja siglingu með "Seatours" eða Sæferðum. Eins og alvöru túristar. En í bátnum var stór hópur af skátum frá Danmörku sem þó voru ekki landsmótsgestir.  En þessi hópur var á vegum kristilegs skáta félags, sagði íslenski leiðsögumaðurinn þeirra mér.  Siglingarnar hjá þeim þarna í Hólminum eru frábærlega skipulagðar.  Fyrst voru það Lundar, svo Haförninn ásamt ungum, Toppskarfur, Rita, Máfur og fl.  Síðast en ekki síst er það alltaf jafn frábært þegar þeir félagarnir skella út veiðafærum og ná í skelfisk, krabba, krossfiska og ígulker og lofa þeim sem vilja að smakka og skoða.

Eftir hádegið fórum við svo út á Bjarnarhöfn og skoðuðum safnið þar.  Kyrrðin og friðurinn á þeim stað var stórbrotinn. Mig langaði bara að vera þar. 

En til baka fórum við, stoppuðum og tíndum ber á leiðinni, gengum svo á Helgafellið og Þrösturinn var stoltur af því að vera á undan þeirri gömlu  Grin. Og ekki er sú gamla minna stolt af syninum þó að Helgafellið sé ekki hæsta fjall sem maður finnur þá er sá stutti bara að storka sjálfum sér.  Kvöldið var svo bara slökun í sundi.

Föstudagsmorguninn fór svo í að taka saman og um eitt var haldið heim á leið.  Fórum beinu leiðina um Vatnaleið.  Ákváðum þegar við ókum fram hjá Eldborg að ganga að henni í haust.  Fórum frekar í Sund í Borgarnesi.  Þar rákumst við auðvitað á þrjár frænkur okkar.  Sem voru að koma úr ferð yfir Kjöl meðal annars.  

Þegar heim var komið hentist Þrösturinn í að skipta um í töskunni sinni og svo var haldið austur fyrir fjall til Davíðs stóra bróður sem vildi endilega að litli bróðir kæmi til sín um helgina í vídeó og bíó helgi.  Þeir bræður komu svo í kvöld ánægðir með helgina.Tjaldvagninum var skilað í leiðinni. 

Til stóð að hjóla hringinn í kringum Þingvallavatn með Siggu, Bjarna og Jóni en ég ákvað að vera frekar heima og nýta daginn í að háþrýsti þvo málninguna af kjallaranum, öxlin mín er líka leiðinleg þessa dagana svo að ég hjóla bara næst.  Hljóp bara með einkaþjálfaranum styttri hringinn í staðinn.  Málningin fauk af að mestu leiti en ég þarf að fá kröftugri græju til að ná rest.  Svo bara eru það steypu viðgerðir og mála. 

Í dag (sunnudag) fór ég svo upp á þak á við byggingunni og komst að því að ég er eiginlega bara lofthrædd Gasp  Allavega tók það mig langan tíma að koma báðum fótum fyrir í stiganum til að komast niður aftur.  Fór út að hlaupa til að ná af mér skjálftanum í löppunum og það dugði ekki annað en að fara lengri hringinn í þetta skiptið enda veðrið bara frábært til að hlaupa í dag. 

En þessa tvo síðustu daga í þessari sumarfrí lotu ætla ég að nota vel og reyna að mála það af timbri sem eftir er, leigja mér 170 bör háþrýstidælu í Húsasmiðjunni, (mín er 110) og klára málningar restar af kjallaranum.  Vinnan kallar svo á miðvikudag.

Davíð minn er svo að gista hjá okkur í fyrsta sinn hérna, en dýrin eru honum frekar erfið ofnæmislega séð. En það er hægt að loka og læsa stofunni og þangað inn kemur hundurinn ekki, og kisu er hent alltaf út um leið og hún sést þar.  Skúrað og þurrkað af vel og vandlega í dag svo að sem minnst af dýrahárum væru í loftinu þar.

Þrösturinn minn gerði þetta myndband um daginn.  Set það inn til gamans. 

 

 


Vel heppnuð verslunarmannahelgarútilega!!!

Jæja þá erum við Þröstur komin heim eftir yndislega veru í Þjórsárdal með Friðgeir og Árný sem lánuðu okkur tjaldvagninn sinn um helgina.  Skelltum okkur af stað á föstudagsmorguninn, fyrst í bæinn og svo austur fyrir fjall og náðum í vagninn.  Þegar við Þröstur komum svo í dalinn var fátt á staðnum og við fundum þessa líka fínu flöt fyrir bæði tjaldvagninn og fellihýsið hjá Friðgeir.  Við vorum mest hissa á hvað var fátt alla helgina í Þjórsárdalnum.  Veðrið var yndislegt, rigndi reyndar á laugadagskvöldið og fram á mánudagsnóttina. En við náðum þurru saman.  

Á Laugardaginn fórum við á Flúðir, á Traktoratorfæruna.  Hrein og klár skemmtun að horfa á gamla Zetora, Massa Ferguson og fleiri gamla jaska drullumalla sig hreinlega á bólakaf. Kíktum svo á Helga og Grétu í sumarbústað rétt hjá Flúðum.

Í rigningarúðanum á Sunnudaginn fórum við svo í bíltúr, út úr rigningunni og upp í Landmannalaugar, Landmannahelli og Ljótapoll.  

Annars var þetta hin notalegasta leti helgi, fórum í sund í Reykjalaug. Grilluðum og höfðum það gott.   Tjaldvagninn fékk að fljóta með á Skagann og spurningin er hvort að við Þröstur skellum okkur ekki bara í áframhaldandi útilegu í Borgarfjörðinn í vikunni. 


Dagur eitt punktur!!! Sumarfrí

Vá hitinn í dag.   Bara æði.

Samt þegar ég kom heim úr vinnunni í gær var hitastigið hérna við húsið einum of hátt.  Ég sat og svitnaði undan sjálfri mér í logninu og sólinni.

 Í dag var aftur á móti yndisleg gola með hitanum svo að það var gott að vinna þar sem sólin skein ekki alveg beint á mig.  Ég er rosalega sátt við dagsverkið, en það var að hreinsa upp lausa málningu af krossviðnum á hluta af kjallaranum.  Endalausa vinnan tók enda, en með þeirri niðurstöðu þó að hluti af krossviðnum sé bara ónýtur.  Verður samt málaður eftir kúnstarinnar reglum.  Þarf að finna fagmann í þessum geira sem getur sagt mér hvað gæti enst best.

Krakkarnir nutu veðurblíðunnar líka.  Í gærkvöldi tók Þrösturinn minn fyrsta stökkið í sjóinn.  Hann stökk reyndar bara af pramma í gær en fór svo í dag með vini sínum og stökk af Akraborgar bryggjunni.  Ekkert smá ánægður með sig þegar hann kom heim að segja mömmu fréttirnar.  Unnur fór svo í búninginn og fetaði í fótspor bróðursins.  Þetta er allt of skemmtilegt sagði daman þegar hún kom heim. 

Núna er stefnan að fara og skokka með einkaþjálfaranum.  En það er að verða nógu lítill hiti fyrir mig að skokka þetta seint. Whistling

 


Sunnudagskvöld


Jæja enn ein helgin liðin.  Þetta var "pabbahelgi" og svipað og venjulega fór helgin í vinnu við Nýhöfnina.  

Á Föstudagskvöldið var ekki hægt annað en að  fara út að hlaupa.  Veðrið var bara frábært.  Og þegar komið var að Langasandi einfaldlega þurfti ég að taka stóra hringinn, sem enn hefur ekki fengið neina vegalengd skráða.  50 mín vorum við "einkaþjálfarinn" minn að skokka þetta og einu skiptin sem hægt var á eða stoppað var þegar tíkin þurfti að létta á sér.   Þetta er bara yndislegur hringur hérna nánast í kringum bæinn.  

Eftir hlaup var farið í að mála aðra umferðina á kjallaragluggana. Sú málning sem fyrir var á gluggunum var einkennileg.  Hleypti greinilega öllum raka undir sig en engu út.  Þannig að hún hreinlega flagnaði af í stórum flyksum.  Vona að tveggja daga þurrkun, grunnfúgavörn og  svo þekjandi Kjörvari dugi. 

Sló blettinn á Laugardag og fór svo í að hreinsa lausa málningu af krossviðs klæðningunni sem er á hluta af kjallaranum á viðbyggingunni.  Púff það er ljóta púlið... Verður kvöldvinnan næstu kvöldin.  En þarf að gera svo að hægt sé að verja það fyrir veðri og vindum.   Svo í morgun þá í rjómablíðunni fór ég að mála eldhúsgluggalistana. Þegar ég var svo búin að skipta um glerlista á öðrum stofuglugganum og mála hann líka og reyndar bara mála hinn stofugluggann vegna skorts á glerlistum... Ákvað að mála þann síðasta til að fá fallegri heildarmynd á húsið og það birti fallega yfir húsinu við það.  Ég er alltaf að verða ánægðari með þennan álmgræna lit með þeim gluggahvíta.  

Kaupi svo meiri Kjörvara, glerlista, skrúfur og glerjunarlista í vikunni.  Annars er ég bara að verða hinn mesti smiður Whistling  Var ekki lengi að sníða þessa lista svo að þeir smellpössuðu með skáa og alles!!  Panta svo tvær rúður á morgun.  Fékk vilyrði frá Trausta um að hjálpa mér við að skipta um þær þegar glerið kemur.  Það hafa verið undarleg vinnubrögð á glerjun hérna, því að önnur rúðan sem ég ætla að skipta um er með móðu á milli enda svo spennt í gluggann að það er engin leið að hnika henni til, plastið sem rúðurnar standa oftast á eru grafnar niður í botnstykkið á glugganum ( verið sniðið niður í með sporjárni) svo að tilgangurinn með plastinu er enginn.   Svo eru í það minnsta tvær aðrar litlar sem eru stífar í. Annarri reddaði ég með því að klippa til plastkort og troða undir hana (tímabundin redding) en hinni ætla ég að skipta út.  Það eru ennþá tveir gluggar í gráa litnum... Uppi í risi.  Frúin hefur ekki enn fengið kjark til að fara svo hátt vopnuð sköfum sandpappír og þessháttar til að undirbúa málningu.  

Þarf að taka mér sumarfrí í vinnunni. Helgarnar eru svo fljótar að líða.

Svo er bara eftir að háþrýsti þvo betur svo að hægt verði að fara í smá sprungu og múrviðgerðir og mála svo. 

Að reyna að redda járninu er svo eitthvað sem ég þarf að glíma við líka. 

Þrösturinn minn kom svo með strætó rétt um klukkan 7 og við dóluðum okkur niður í Krókalón þar sem hann fór að vaða íklæddur blautbúningi.  Gaman að sjá hvað krakkarnir hérna eru mörg hver að leika sér í sjónum á Langasandi og þessir búningar eru hrein og tær snilld.

 


Litli hringur mældur.

Ég er nú ekkert smá tæknivædd.  Er búin að eiga í rúmlega 3 ár Garmin e-trex  Legend tæki sem ég hef notað helling þegar ég rölti á fjöll.  En aldrei hefur mér dottið í hug að nota tækið til að mæla vegalengdir.  En núna er ég búin að uppgötva hvernig á að núllstylla "Odometer" á tækinu til að mæla og vita hversu langar vegalengdir ég er að fara hvert sinn.  Svo að núna í kvöld strax eftir að ég var komin heim úr vinnu skellti ég mér í hlaupagallann og skóna, tók tíkina og GPS og skokkaði af stað.  Sem sagt við fórum frá Nýhöfninni og litla hringinn aftur að upphafspunkti við húsið er réttir 3 km og 660 metrar.   Heldur lengra en ég áætlaði en innan allra skekkjumarka.   Alltaf meira gaman að sjá að ég er duglegri en ég hélt að ég væriGrin 

Af endurbótum á Nýhöfninni er að að segja að þetta mjakast.  Ég er svona að skipta um gluggalista hér og þar en mála annarsstaðar.  Já Álmgrænn á kjallaraveggi og ramma utan um glugga. Gluggahvítur  á glerlista, glugga og útihurðir varð útkoman.  En eftir er að finna réttan lit til að bletta í bárujárnið sem er í hvítum tón, en þetta á að heita viðhaldsfrí klæðning.  Salt og veður vinnur nú samt á þessu. Gluggavinnuna núna um helgina tafði blessuð rigningin, en eftir að ég byrjaði á að hreinsa upp kítti úr eldhúsglugganum og losa um skrúfur í gömlu listunum jókst lekinn sem hefur hrjáð þennan glugga síðan í haust til muna en sú rúða sem ég er búin að skipta um lista á heldur Wink  Hvað annað!!  Eftir vinnu á morgun verður önnur rúða tekin fyrir, og svo frv..... Frúin í Nýhöfn tekur þetta á sínum hraða.  Vonast bara eftir þurru kvöldi til verksins.  Annars fær háþrýstidælan bara áframhaldandi vinnu.


Blöðrur og borðar

Þegar ég kom heim á Skagann í dag þá blöstu við borðar og blöðrur á Kirkjubrautinni.  Allt í tilefni Ískra daga sem formlega hefjast á morgun.

Þetta verða fyrstu Írsku dagarnir sem ég upplifi hérna sem íbúi á Akranesi en ég hef þó mætt á Skagann og á Lopapeysuballið tvisvar áður.

Ég ætla reyndar ekki að vera alla helgina heima í þetta skiptið því að ég tók áskorun frá frænda mínum um að hjóla Hvalfjörðinn um helgina.   Ég lét nú hjólasystu vita og hún og dóttir hennar ætla að slást með í för.  Góða veðrið á Laugardag á að nota til fararinnar, svo bara skella sér á Lopapeysuball um kvöldið.  

Undirbúningurinn fyrir hjólatúrinn er kannski frekar lítill en þó búin að fara tvisvar út að skokka í vikunni, sem sjá mátti á andrésar andar göngulagi frúarinnar í gær, var mun skárri í dag enda skokkuðum við Núbía (tíkin mín) hringinn bara létt núna í kvöld svo var bætt lofti í dekkin á hjóli sonarins sem ég ætla að fá lánað á meðan hann er á Portugal.  Frekar skrítið að hafa ekki litla stúfinn heima svona lengi. Vika búin og vika eftir af ferðinni hjá honum.


« Fyrri síða

Um bloggið

Haddý

33 dagar til jóla

Höfundur

Hallfríður Jóna Jónsdóttir
Hallfríður Jóna Jónsdóttir
Hársnyrtir og áhugamanneskja um náttúruna landið og útivist.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Seljalandsfoss
  • Bleikur himinn í Þjórsárdal
  • Þjórsárdalur
  • Traktorarallý á Flúðum
  • Núbía á fullu í steinabjörgun

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband